Hyndla ehf

Nægtarbrunnur þörunga.

Tilgangur Hyndlu ehf.

Tilgangur félagsins er að stuðla að rannsóknum, þróun og ræktun þörunga á Íslandi.

Að framleiða og selja lífvirk og ólífvirk efni unnin úr þörungum ásamt inn– og útflutningi í tengslum við starfsemi félagsins.

Frétt 30.05. 2020

Hér má sjá grein eftir okkur í stjórn Hyndlu ehf, sem birtist í Fréttablaðinu 28. maí 2020

Höfundar:

       

                                                          

Bjarni G. Bjarnason                     Gestur Ólafsson                              Guðrún Hallgrímsdóttir

Framkv.stjóri Hyndlu ehf             Arkitekt og skipulagsfræðingur   Matvælaverkfræðingur

Þörungar og nýsköpun

Inngangur

Í mars s.l. kom út á vegum Íslenska sjávarklasans greining með yfirskriftinni „Tækifæri í þaraskógunum við Ísland“. Fjallar hún um möguleika á aukinni nýtingu þaraskóga við strendur landsins, sem er þakkarvert, enda felast stórkostleg, ónotuð tækifæri í nýtingu stórþörunga á Íslandi.

Brún-rauð- og grænþörungar

Auk nýtingar á þara, sem eru brúnþörungar, er einnig fjöldi möguleika á nýtingu rauð- og grænþörunga t.d. klóblöðku, sölva, purpurahimnu, maríusvuntu o.fl. Nýtingarmöguleikar rauð- og grænþörunga eru ekki síður mikilvægir en brúnþörunga.

Talið er að tegundir svokallaðra stórþörunga sem vaxa við Ísland séu um 300. Hefur aðeins lítill hluti þeirra verið nýttur að einhverju marki, einkum klóþang, söl og hrossaþari.

Þaraskógar

Víða þar sem þaraskógar eru nýttir til töku hafa verið viðhafðar stórtækar veiðiaðferðir þar sem togbátar (kelp trawlers) slíta upp þarann. Þær aðferðir hafa verið harðlega gagnrýndar og eru sums staðar alfarið bannaðar.

Þaraskógar gegna margþættu og þýðingarmiklu hlutverki í náttúrunni. Þeir eru búsvæði aragrúa lífvera, m.a. margra nytjastofna sem ýmist hrygna þar, leita sér fæðu eða skjóls. Þeir vernda land fyrir ágangi sjávar og gegna veigamiklu hlutverki við upptöku koltvísýrings úr andrúmslofti og binda kolefni eins og skógar á landi. Líta þarf til margra þátta við ákvörðun um nýtingu þeirra. Ítarlegar rannsóknir eru því nauðsynlegar til að tryggja að nýtingin sé sjálfbær bæði hvað varðar þörungana sem verið er að nýta og búsvæði þeirra.

Ræktun stórþörunga

Af rúmlega 35 milljón tonna heimsframleiðslu stórþörunga koma yfir 95% úr ræktun. Neytendur átta sig í vaxandi mæli á mikilvægi þaraskóga fyrir umhverfið og munu því kjósa afurðir úr þörungum sem eru ræktaðir frekar en úr þeim sem vaxa villtir.

Það er skoðun greinarhöfunda að nýtingu stórþörunga á Íslandi verði best fyrir komið með ræktun á landi og úti í sjó þar sem því verður við komið. Þetta útilokar þó ekki möguleika á nýtingu á náttúrulegum stórþörungastofnum að einhverju marki sé tryggt að nýtingin sé sjálfbær.

Nýtingarmöguleikar stórþörunga

Möguleikar á nýtingu stórþörunga eru margvíslegir. Þar af leiðandi er markaður fyrir stórþörungaafurðir ekki einn – þeir eru margir og ólíkir. Ýmsar framleiðslugreinar sækjast eftir efnum úr stórþörungum t.d. matvæla- og fæðubótaiðnaður, snyrtivöruiðnaður, lyfja- og náttúrulyfjaiðnaður, efna- og orkuiðnaður, landbúnaður og eldi sjávardýra.

Í Asíu hafa stórþörungar verið nýttir um aldaraðir og eru lönd í Suðaustur-Asíu lang stærstu framleiðendur og þar með einnig stærstu ræktendur stórþörunga í heiminum. Metnaðarfull áform eru uppi um að auka hlut stórþörunga í hagkerfi framtíðarinnar í Evrópu og Bandaríkjunum.

Rannsóknir á stórþörungum fara nú fram í háskólum og fyrirtækjum víða um heim. Ritrýndar vísindagreinar birtast í hundraðatali á hverju ári um líffræði þeirra, gagnsemi og nýtingarmöguleika.

Möguleikar og markaðir

Á Íslandi eru sannarlega góðar aðstæður til að framleiða eftirsóttar afurðir úr stórþörungum. Þar vegur þyngst ímynd landsins vegna hreinleika náttúrunnar og hreinna og sjálfbærra orkugjafa. Svo eru hér mörg öflug nýsköpunarfyrirtæki sem nú þegar nýta efni úr þörungum í framleiðslu sína.

Það er skoðun okkar að ekki beri að keppa eingöngu að magnframleiðslu stórþörunga. Miklu fremur eigi að stefna að framleiðslu sem uppfyllir strangar kröfur um gæði og hreinleika fyrir sérhæfða markaði. Markaðir fyrir þörunga á Vesturlöndum eru í mótun en fara ört stækkandi. Lög og reglugerðir um innihaldsefni þörunga, vinnslu þeirra og nýtingu eru einnig í stöðugri þróun. Með skýrari lögum og reglum munu kröfur um gæði aukast og um leið munu ábatasamir markaðir stækka.

Uppbygging á nýrri atvinnugrein

Svo að vel takist til við uppbyggingu öflugs iðnaðar í kringum stórþörunga á Íslandi þurfa margir þættir að fylgjast að s.s. gott skipulag, samvinna, skýr lög og reglur og öflugt rannsóknar- og þróunarstarf. Góð menntun í líf-, verk-, markaðs- og hönnunarfræðum er afar mikilvæg. Þátttaka í alþjóðlegri samvinnu og samstarfi er einnig nauðsynleg. Það þarf að vanda til við þróun og uppbyggingu greinarinnar, nýta þá þekkingu sem til er og aðlaga að þeim aðstæðum sem hér ríkja. Síðast en ekki síst þarf þolinmótt fjármagn frá þróunar- og fjárfestingarsjóðum og einkafjárfestum sem eru reiðubúnir að fjárfesta til framtíðar í spennandi og umhverfisvænni atvinnugrein — í líf- og bláa hagkerfinu á Íslandi.

  • Grey Facebook Icon
  • Grey Twitter Icon

Hyndla ehf

Þingholtsstræti  30

101 Reykjavík

Telephone: 00 354 8610524

hyndla@hyndla.is

  • Instagram
  • Facebook
  • Twitter