Um þörunga.

Þörungar eru um margt merkilegar lífverur, eitt af elstu lífsformum jarðar. Fyrir um þremur milljörðum  ára  þróuðu þeir með sér svokallaða ljóstillífun. Talið er að um 30 - 40 þúsund þörungategundir séu þekktar í vísindasamfélaginu í dag.  Áætlað er að allt að tíu sinnum fleiri tegundir séu enn óuppgötvaðar eða á milli 300 - 400 þúsund óþekktra þörungategunda. Það verður því ærinn starfi hjá flokkunarfræðingum og vísindafólki framtíðarinnar, framtakssömum einstaklingum og fyrirtækjum að rannsaka og nýta þá gríðarlegu möguleika, sem þarna kunna að leynast.

Á heimasíðu Hafrannsóknarstofnunar er að finna eftirfarandi skilgreiningu á þörungum:

,,Í raun eru þörungar ekki einn samstæður hópur heldur er um að ræða fjölmarga óskylda hópa. Þróunarfræðilega eru sumir hópar þörunga náskyldir bakteríum eins og t.d. bláþörungar, aðrir eru skyldir einfruma dýrum og síðan eru einnig þörungar sem eru flokkaðir með mosum, burknum og háplöntum, þ.e. grænþörungar. Það er sameiginlegt öllum þörungum að þeir hafa a-blaðgrænu og ljóstillífa, mynda súrefni og lífræn efni úr ólífrænum og nýta til þess orku sólarljóssins. Þennan eiginleika hafa einnig mosar, byrkningar og háplöntur, enda náskyld grænþörungum eins og áður sagði.
Þörungar hafa aðlagast lífi við nánast allar hugsanlegar aðstæður. Þá er að finna í þurrum eyðimörkum, uppi á jöklum og í heitum hverum, mest er fjölbreytni þeirra þó í sjó og vötnum. “

Sjávarþörungar eru samheiti yfir gróður sjávar. Sjávarþörungum er oft skipt í tvo flokka eftir lifnaðarháttum og búsvæðum; annars vegar plöntusvif og hins vegar botnþörunga (þang og þara). Plöntusvif er örsmár svifgróður sem berst með straumum sjávar en botnþörungar vaxa á botninum eins og nafnið bendir til.

Allt líf í sjónum byggir tilveru sína beint eða óbeint á ljóstillífun sjávarþörunga. Með þeirri framleiðslu sem í ljóstillífuninni felst nýta þörungarnir ljósorku sólarinnar til að byggja upp lífræn efni úr ólífrænum. Megnið af framleiðslunni kemur frá plöntusvifinu í efstu lögum sjávar, en botnþörungarnir taka einnig þátt í nýmyndun lífrænna efna.
 

Rannsóknir og nýting

Nýting þara og þangs til manneldis og lækninga er þekkt frá örófi alda. Hafa Asíubúar nýtt sér afurðir þeirra um árþúsundir. Eins var nýting þangs og þara þekkt við strendur Evrópu fyrr á öldum. Á Íslandi voru söl verðmæt afurð og ýmsar aðrar þangtegundir og fjörunytjar. Mikil vakning hefur orðið í vísindasamfélaginu, séstaklega á Vesturlöndum, síðustu áratugi um frekari rannsóknir á þörungum og nýtingu þeirra. Nýting þörunga getur verið af margvíslegum toga svo sem til manneldis, fæðubóta, lyfjagerðar og lækninga. Efnaiðnaður ýmiss konar er farinn að nota afurðir þörunga í framleiðslu sína og þekktar eru tilraunir með þörunga til eldsneytis og olíuframleiðslu. Í vaxandi mæli eru þörungar nú notaðir við hreinsun á affalli frá fyrirtækjum sem  innihalda lífræn efni.  Nýting þörunga getur vegið þungt í framtíðinni í baráttunni gegn næringarskorti og þeirri umhverfisvá af mannavöldum sem nú vofir yfir.  

Hyndla ehf

Nægtarbrunnur þörunga.

Hyndla ehf

Þingholtsstræti  30

101 Reykjavík

Telephone: 00 354 8610524

hyndla@hyndla.is

  • Instagram
  • Facebook
  • Twitter